<$BlogRSDURL$>
Lýðræðisrýnar
Friday, March 26, 2004
  Útgönguspár - Hnífjafnt í inspector: Úrslitin ráðast í yngri bekkjunum - Steindór forseti: enn er of mikil óvissa - Lagatúlkunarnefnd: Friðrik inni, Haukur úti? - Zéra Zkáldzkaparfélagsins: Sigurður öruggur um sigur.

Samkvæmt útgönguspám er hnífjafnt á milli Jón Bjarna og Elínar Lóu og telja stjórnmálaskýrendur að atkvæði hafi fallið mjög kynjaskipt og að atkvæði þriðja bekkjar muni hafa úrslitaáhrif. Mikil óvissa ríkir um hver verði næsti forseti Framtíðarinnar og svo virðist sem fólk hafi átt erfitt með að gera upp á milli Lovísu og Steindórs, en hátt hlutfall auðra hefur vakið athygli. Kosningar í lagatúlkunarnefnd stefna í að verða tvísýnar en samkvæmt útgönguspám er framboð fimmta bekkjar rétt svo inni og er Haukur Hólmsteinsson enn talinn líklegur til að koma inn í staðinn fyrir einn af þremenningunum. Sigurður Arent er svo talinn sigurstranglegastur í kjöri til Zérans og er sigri hans spáð með allt að 90% greiddra atkvæða. 
|
  Keyrir kjörstjórn spora sína í síðu lýðræðisins?

Eru menn ekki á eitt sáttir um orsakir uppþots sem skýrt er frá hér að framan. Hafa komið fram ásakanir um að kjörstjórn hafi blásið upp ásakanir á hendur 5.M og misnotað vald sitt gróflega. Eru saklausir nemendur æfir vegna meðferðarinnar og segja kjörstjórn standa fyrir pólitískum ofsóknum.

Ekki náðist í hlutaðeigandi vegna málsins. 
|
  Ósvífnir stuðningsmenn hleypa kosningum í uppnám!

Upp komst um mikið hneyksli um hádegið í dag þegar yfirkjörstjórn hafði veður af því að stundaður væri grimmur áróður á kjördag í stofum 5.M. Er það skýlaust brot á grein 35.2 í lögum Skólafélagsins og brást kjörstjórn skjótt við. Var 5.M settur í einangrun og meðlimum hans meinað að kjósa þar til yfirkjörstjórn og forsvarsmenn bekkjarins höfðu fundað um málið. Þykir þetta mál mikill álitshnekkir fyrir Skólafélagið og bárust þær fréttir að jafnvel yrði farið fram á afsögn bekkjaráðsmanns, þar sem hann hafði brugðist eftirlitshlutverki sínu. Samkvæmt öruggum heimildum neitaði bekkjaráðsmaður öllu slíku og á að hafa sagst "ekki vera peð til að hvítþvo kjörstjórn".

Eftir samræður og skraf þótti sýnt að hér var um lítinn hóp róttækra stuðningsmanna og anarkista og voru menn leiddir burt eftir óspektir. Jóhann Alfreð Kristinsson varðist allra frétta á meðan fjaðrafokinu stóð og sagði málið "á viðkvæmu stigi og rætt yrði um samkomulag". Gunnar Scheving Thorsteinsson, formaður Lagatúlkunarnefndar var þó öllu harðorðari í garð lagabrjóta og aðspurður um viðeigandi viðbrögð lét hann hafa eftir sér að það "á að banna þessu fólki að kjósa". Lauk málinu með samkomulagi um ávítur og formlega afsökunarbeiðni frá öllum bekknum.

ÁPÞ 
|
  Kjördagur - Enn er þó tími til stefnu.


Kjördagur upp runninn og menntskælingar flykkjast að kjörskjám. Sífellt háværari verða þó gagnrýnisraddir sem meina að víða sé pottur brotinn í framkvæmd og engan veginn skilyrðum um sanngjarnar kosningar fullnægt. Hefur verið bent á að kjósendur þurfi að sæta þrýstingi og yfirgangi af hálfu yfirvalda og hafa fréttir borist af yngstu kjósendunum sem hafa brostið í grát og ekki getað notið réttar síns. Auk þess eru engir óháðir eftirlitsmenn viðstaddir framkvæmd kosninganna og hefur það vakið furðu og jafnt spurningar um raunverulegt eðli kjörstjórnar. Hafa engar upplýsingar verið gefnar út um hvernig farið sé með atkvæði nemenda í hinu stafræna kjörkerfi og hvernig það sé tryggt að ekki sé hægt að hafa áhrif á úrslitin. Eru jafnvel uppi raddir meðal lýðræðisunnandi nemenda að hafa samband við fulltrúa ÖSE á Íslandi til að koma í veg fyrir að úrslitum verði hagrætt. Er lýðræðið í Menntaskólanum í Reykjavík komið á sama stig og í fyrrum Sovétlýðveldunum?

Kjósendur verið vakandi, nú er upp runninn dómsdagur!

ÁPÞ 
|
Thursday, March 25, 2004
 

Hugvekja til menntskælinga

Dagur er upp kominn,
dynja hana fjaðrar,
mál er vílmögum
að vinna erfiði.

Nemendur ganga til kosninga á morgun. Þeir munu ganga að tölvum og þrýsta á músarhnapp. Menn verða kosnir í embætti, aðrir ekki. Undirritaður ætlar í þessari grein að vekja nemendur til umhugsunar og efla þá í hugsun um hvert valdið í rauninni er, hvert lífi þeirra er stefnt, hverjir þeir eru, hver skólinn er, hvert landið er, hvert andartakið er og hvert fljótið rennur sem við berumst öll með.

Árið 1262 gengum við Íslendingar (norræn varmenni og bændur + keltneskir þrælar) Hákoni gamla Noregskonungi á hönd. Sáttmáli sem annaðhvort er kenndur við einhvern Gissur eða kallaður sá gamli.

Kópavogsfundur var haldinn árið 1662. Nú var Danakonungi leyft að ráða öllu. Nokkrir íslenskir embættismenn (sárfátækir og holdsveikir smábændur) voru neyddir til að skrifa undir plagg þess efnis.

Svo skrifaði maður að nafni Jón Sigurðsson (getinn og fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð, ómerkilegum kofa á Vestfjörðum, kenndum við skottulækninn Hrafn Sveinbjarnarson) grein í blaðið sitt. Árið var 1848. Merkilegt ár í meira lagi. Jón okkar sagði að einveldinu væri lokið og plaggið frá 1262 væri aftur komið í gildi. Eins og gefur að skilja var plagg þetta löngu glatað og ónýtt. Því var ekki orðið að kröfu Nonna.

Og núna sit ég við músarhnapp og árið er 2004. Ég veit ekki hvaða sáttmálar eru í gildi. Kannski allir, ef til vill enginn. Ég fæddist fyrir 20 árum. Á 20 árum hefur mér verið kennt að þessi eða hinn sáttmáli sé í gildi. Ég las í bók að Ísland sé sjálfstætt ríki á Atlantshafi.

Ég veit ekki.

Ef til vill er kominn tími á nýja sáttmála. Ég ætla að kalla sáttmálann 0. Hann verður níhílískt svar við öllu því ómerkilega. Öllu andvaraleysinu. Ládeyðunni.

Kæru Íslendingar!

Sáttmálinn 0 er nú í gildi. Árið er 2004.

Kjósið í félagsmál. Pantið ykkur pizzu. Kveikið á sjónvarpinu.

Hjálp...

ö...

...

Helgi Hrafn Guðmundsson 
|
  Varðhundur kom niður í Kösu eftir atgang frambjóðenda og varð vægast sagt fyrir áfalli. Kösukjalllari leit út eins og Eldborg mánudaginn 6. ágúst 2001 og hnédjúpt í sorpinu stóð Fjóla raunamædd. Í samtali við varðhund sagist hún aldrei hafa séð "jafn mikið rusl og drasl, nema þá kannski eftir Love Parade ´97". Aðspurð hugðist félagsheimilisnefnd leigja snjóplóg ellegar kveikja í draslinu. 
|
  Fjórði dagur - Stendur sláturfélagið á bak við framboð til skemmtinefndar?

Varðhundar runnu á lyktina af kosningabaráttunni í Kösu-kjallara í dag en nú moka frambjóðendurnir öllu fögru í trog fyrir kjósendur. Gera menn meira af því að reyna að halda lýðnum mettum og sáttum fram á kjördag í stað málefnalegra umræðna. Málefnafátæktin er algjör og vekur þetta óhug margra eldri og reyndari manna. "Gegndarlaust sukk og svínarí" varð einum viðmælenda varðhunda að orði. Hafa frambjóðendur mokað út öllu frá Frissa fríska að fiskimjöli í von um að kaupa sér ágæti í augum kjósenda. Mikla athygli vakti að við fordyri múgsefjunarinnar stóðu tveir drengir í framboði til skemmtinefndar, íklæddir pylsubúningum. Stóðu þeir þar og gerðu köll að vegfarendum og mokuðu út svínaafgöngum í gesti og gangandi. Hví eru þessir menn gangandi auglýsingar fyrir kjötvinnslufyrirtæki þegar þeir stefna á skemmtinefnd Skólafélagsins? Varðhundum er spurn: Hver stendur á bak við alla þessa óráðsíu? Hafa stórfyrirtæki, erlend sem innlend, keypt sér frambjóðendur í þeirri von um að það muni greiða þeim leið að nemendum og auðlindum Menntaskólans? Hví er þessi leið valin? Eða er þetta greitt úr eigin vösum? Mun óráðsía setja mark sitt á störf þeirra eða munu kjósendur koma til með að kjósa handbendi stjórnarmanna út í bæ yfir sig?

Varðhundar lýðræðisins gera þá skýlausu kröfu í nafni kjósenda að frambjóðendur opni bókhald sitt og standi skil á kosningabaráttu sinni.

ÁPÞ 
|
Wednesday, March 24, 2004
  Atli Freyr Steinþórsson - maður ástríðu og vinsælda

Margir þekkja Atla Frey. Hann hefur keppt í spurningakeppnum og er geysilega vinsæll á meðal 3. bekkinga. Hann er þekktur undir nafninu Atli „Bader-mænhoff“ hjá yngri bekkingum. Stelpur vilja hann og strákar vilja vera hann. Atli er eins konar holdgervingur hins sanna baráttujaxls - þess sem öll fræði eru viðkomandi. Atli er líka góð eftirherma og leikari - á myndinni fyrir ofan sést hann í gervi Hallgríms Helgasonar.

Það vita frambjóðendur að í gegnum Atla er hægt að raka inn atkvæðum. Hann er eins konar ávísun merkt handhafa sem allir berjast um. Margir hafa látið taka myndir af sér við hlið kappans og sumir hafa gengið svo langt að bjóða honum í ýmsar veislur og mannamót.

Er þetta ekki vafasamt? Gengdarlaust neimdroppið hefur a.m.k. hneykslað marga í 6. bekk. Einn viðmælandi Varðhunda sagði að lýðræðið í MR væri í vanda statt. „Svona gengur ekki á tímum sem við viljum kenna við réttlæti og jafnræði. Þetta minnir barasta á Sovét.“

En Varðhundar vilja opna þessa umræðu upp á gátt. Lesendur eru eindregið hvattir til þess að tjá sig um málið hér í kommentakerfinu.

HHG 
|
  Þolir Herranótt dagsbirtu upplýsingarinnar?

Í framboði til leiknefndar er nýr fimm manna listi og lýkur þar með tveggja ára ferli nær sömu Herranæturstjórnarinnar. Eða hvað? Undirritaður tók að sér að kanna hverjir eru í framboði til leiknefndar eftir að ábending barst til vefritsins um óeðlileg tengsl framboðsins við fyrri stjórnarmeðlimi. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að flestir frambjóðendurnir hafa komið að leiksýningum síðustu tveggja ára undir stjórn fráfarandi stjórnar auk þess sem þeir allir gegna veigamiklum hlutverkum í uppsetningu þessa árs. Einnig þykja persónuleg tengsl setja mark sitt á framboðið en nafn Hilmis Jenssonar, eins af forkólfum fráfarandi stjórnar, hefur borið oft á góma í sambandi við þetta mál. Unnusta Hilmis, Þura Garðarsdóttir, er í framboðinu auk Björns Leós Brynjarssonar sem samkvæmt traustum heimildum er úr "innsta vinahring stjórnarinnar". Auk þess ku Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, ein fimmmenninganna, hafa náin tengsl við annan inspectorskandídatinn.

Er hér fráfarandi stjórn að tryggja áframhaldandi ítök sín? Hafa arftakar stjórnarinnar verið aldir í kyrrþey og þeim tryggðir stjórnartaumar næsta árs? Viðgengst skoðanakúgun? Hefur mönnum verið hyglað á einn eða annan hátt? Þetta og margt annað mun skýrast á næstu dögum.

ÁPÞ 
|
  Baktjaldamakk og ráðabrugg í forsetakosningum

4. bekkingur sem vill ekki láta nafn síns getið hringdi. Hann hefur öruggar heimildir fyrir því að forsetaframbjóðendurnir Lovísa Arnardóttir og Steindór Grétar Jónsson hafi bæði óafvitandi af hinu, ákveðið að mæta ekki á kosningavökuna. Þau ætla að fylgjast með MORFÍs-keppni. Þetta þykir bera vott um áhuga þeirra beggja til ræðumennsku.

En spurningin er þessi: Hverjir eru á bak við tjöldin í leiksýningu þessari? Ljóst er að Lovísa og Steindór eiga greinilega bæði góðan hóp áróðurs- og siðameistara. Ýmsir gamlir Framtíðarhaukar hafa verið nefndir til sögunnar. En þessi mál munu skýrast á næstu dögum.

HHG 
|
  Glæfralegar yfirlýsingar gjaldkera!

Kosningavikan tók á sig kynduga mynd í dag þegar tilkynningar frá sjálfkjörnum gjaldkera málfundafélagsins Framtíðarinnar, Grími J. Sigurðssyni, tóku að birtast á veggjum skólans.

Í tilkynningu þessari lætur Grímur gamminn geisa undir fyrirsögninni Grímur í hæstu hæðum og útlistar þar vægast sagt skuggaleg áform sín. Meðal yfirlýstra stefnumála Gríms eru að standa fyrir "uppákomum sem bæði gleðja nemendur skólans og þyngja pyngju Framtíðarinnar" en svo taka málin óvænta stefnu.
Framtíðinni beint inn á braut glæpa?
Í greininni setur Grímur sér það markmið að gera Framtíðina að skjóli "eiturlyfjasölu og vændi sem talin eru hinar mestu féþúfur" og ætlar hann skjótfenginn gróða en þá nemendum til góða? Grímur heldur áfram: "Einnig mun ég reyna að viðhafa eins mikla spillingu og ég kemst upp með... og hugsanlega draga mér fé". Er mönnum gróflega misboðið að arðræna eigi félagsmenn. En enn er þó ekki raunum nemenda lokið heldur ætlar Grímur að kúga fé með ofbeldi og selja félagsmenn mansali. Klykkir hann út með orðunum: "Viva spillingin og rússnesk kosning".
Syndaselur svarar ekki fyrir sig
Ekki náðist í Grím í viðtal vegna málsins en varðhundi hefur borist til eyrna þau ummæli Gríms að hann "sjái ekki eftir neinu" og hann standi fyllilega á bak við orð sín. Á þetta mál sér ekkert fordæmi í kosningabaráttunni og eru varðhundar slegnir yfir því hvernig maður, kominn í slíkt embætti, dirfist til að sýna kjósendum langt nef. Ítreka ég því orð mín í pistli hér á síðunni um að sjálfkjörnum embættismönnum verður að sýna sérstakt aðhald. Kjósendur, látið óánægju ykkar í ljós svo fúskarar komist ekki upp með neitt hálfkák! Tryggjum öruggt og farsælt starfsár.

ÁPÞ 
|
  Þriðji dagur kosningaviku - Aðhalds er þörf!

P I S T I L L

Að gefnu tilefni ítrekum við að nafnlausar hótanir og símhringingar að nóttu skal ekki kæfa gjallarhorn réttlætisins.

Það ber mikið á því að menn séu sjálfkjörnir ellegar einir í framboði í hin ýmsu embætti. Það þýðir þó ekki að þessir menn ættu að undanskildir allri gagnrýni. Það er skammarlegt að menn taki við embætti án þess að því fylgi nokkur pressa. Jafnvel nú, á þriðja degi, eru nokkrir sjálfkjörnir frambjóðendur farnir að sýna kjósendum embættishroka og lítilsvirðingu. Þessir menn munu koma með að starfa í okkar umboði og því verða þeir að sýna það og sanna að þeir séu þess verðugir.

Einnig er nauðsynlegt að brýna það fyrir kjósendum að það að frambjóðandi sé einn í framboði til embættis er ekki skilyrði að greiða honum atkvæði. Atkvæðið er tæki til tjáningar og hægt er að lýsa yfir óánægju sinni með frambjóðanda með því að skila auðu. Setjum nauðsynlega pressu á frambjóðendur svo þeir hypji upp um sig buxurnar og taki þátt í þessu ferli sem kosningarnar eru. Látum þá vita að þeir þurfi að vinna inn sinn stuðning; að jafnvel þótt þeir komist í embætti mótstöðulaust þá þýði það ekki að þeir geti farið sínu fram í okkar nafni. Atkvæði okkar er heilagur réttur sem við skulum ekki útdeila til þeirra sem vilja ekki vinna fyrir því. Látum ekki atkvæði okkar falla í ginnungagap heldur beitum því rétt! Autt er líka gilt!

F.h. Varðhunda,
ÁPÞ 
|
  Vefritinu hefur borist bréf:

Kæru Varðhundar,

Þið eruð á hættulegum brautum. Ég ráðlegg ykkur að hætta skrifum. Menn í æðstu valdastöðum eru ekki sáttir. Ég bið fyrir ykkur.

Virðingarfyllst,
ónafngreindur vinur. 
|
  Á bak við tjöldin: Hannes Friðsteinsson

Varðhundar röbbuðu við Hannes Friðsteinsson, portner um kosningavikuna. „Ég hef andstyggð á þessum tíma ársins. Nemendur í framapoti ganga um skólann og bera með sér allskyns óþrifnað. Og svo standa hinir nemendurnir á beit við nammiskálar frambjóðenda. Skólinn er rjúkandi rúst á eftir. Einn frambjóðandinn skildi þennan haug eftir á einu borðinu niðri í Cösu í gær“ Hannes sýndi okkur mynd og gaf leyfi fyrir birtingu hennar.


Við óskum Hannesi velfarnaðar og vonum að nemendur gangi betur um.

F.h. Varðhunda
Helgi Hrafn 
|
  Pólitísk erfðaskrá

Heyrst hefur að fráfarandi forseti Framtíðarinnar og Inspector Scholae hafi ritað pólitíska erfðaskrá í hverri þau fela vald nafngreindum eftirmönnum. Heimildum ber þó ekki saman hverja þau vilja arfleiða völd sín. Meint erfðskrá mun hafa verið stungið undir stól. Talið er ólíklegt að hún finnist í bráð og verði því nöfnin innsigluð um aldur og ævi. Stjórnmálaskýrendur segja þetta mál geti komið ólgu á kosningabaráttuna. Ekki náðist í Jóhann Alfreð Kristinsson né Ernu Kristínu Blöndal vegna málsins.

HHG 
|
Tuesday, March 23, 2004
  Stöndum vaktina!

P I S T I L L

Athygli varðhunda vakti, þegar rennt var augum yfir framboðslista, hversu gífurlegur fjöldi sækist eftir setu í fornfrægum nefndum og ráðum sem eru lítið eitt annað en börn síns tíma og hafa þjónað félagslífi skólans á síðustu árum álíka mikið og náttúrugripasafn Lærða skólans hefur komið að líffræðikennslu. Varðhundarnir fagna áhuganum á að takast á við félagsstörf en á sama tíma eru ýmsar góðar og gildar stofnanir innan þessa skóla látnar sitja á hakanum. Hvernig stendur á þessu? Ef að frambjóðendur í sum þessara embætta hafa hálfan þann metnað og eldmóð sem þeir stæra sig af hví takast þeir ekki á við krefjandi störf í þágu nemenda þar sem vinna þeirra gæti skipt raunverulegu máli? Óttast varðhundarnir að hér sé lýðskrum og ósvífnir framapotarar á ferðinni. Kosningaloforðin vissulega fögur en þau munu súrna fljótt er sannur tilgangurinn kemur í ljós.

Óumflýjanlegur fylgifiskur lýðræðislegra stjórnarhátta, myndu margir segja, en því höfnum við enda tilgangur þessa vefrits einmitt til að vekja fólk til vitundar og umhugsunar svo ekki sé troðið á rétti þess. Látum ekki lýðskrumara sem láta stjórnast af eiginhagsmunum slá ryki í augu okkar svo þeir geti komist til metorða í nafni fólksins. Hagsmunum okkar er ekki best borgið í höndunum á fólki sem hugsar einungis um að maka krókinn á kostnað nemenda. Smánarlegum fýsnum skal ekki svalað á altari lýðræðisins!

F.h. Varðhunda,
Ásgeir Pétur 
|
  Lagatúlkunarnefnd

Gríðarlega spennandi kosningabarátta er til lagatúlkunarnefndar. Það er næstum óþekkt að nokkur hafi gert skapaðan hlut sem setið hefur í henni. Varðhundarnir fóru á stúfana og náðu tali af frambjóðendum.


Þórður Gunnarsson 5.B
Við hittum Þórð þar sem hann skenkti sér kaffidreitil niðri í Cösu. „Maður verður að koma sér í gang, er að fara í grútleiðinlegan stærðfræðitíma“ sagði Þórður á meðan hann setti lokið á bollann. Varðhundarnir gengu með honum upp tröppurnar. „Ég er með skjöl sem ég þarf að líta yfir. Reikna ekki með að fylgjast mikið með kennslunni. Svo verð ég líklega á netfundi og nota að sjálfsögðu ferðatölvuna. Þarf að fara yfir nokkur mál með nefnd.“ Aðspurður um stefnumál og kosningaloforð var Þórður gagnorður: „Ég mun beita mér fyrir réttlæti nemenda. Lagavafstur er erfiður fyrir leikmenn.“ Við kvöddum Þórð með virktum.


Axel Kaaber 5.B
Axel var gríðarhress þegar Varðhundarnir báru að garði. „Sælir drengir! Ég er á leið niður í Héraðsdóm, ætla að fylgjast með ótrúlega spennandi forræðisdeilu.“ Við slógumst að sjálfsögðu með í för og á leiðinni niður að Lækjartorgi spurðum við um Lagatúlkunarnefndina. „Já, ég hef lengi alið þann draum að túlka júrísk mál fyrir krakkana. Lögfræðistörf eru mér í blóð borin, flestir þekkja líklega föður minn. Hann er svo oft í Lögbirtingarblaðinu.“ Þar vísar kappinn auðvitað í pabba sinn Lúðvík Kaaber. Við sögðum bless við Axel á tröppum Héraðsdóms. Hann kallaði á eftir okkur: „Ég heiti því að túlka vel og vandlega!“

Friðrik Steinn Friðriksson 5.B
Frikki sat í tölvustofunni, brúnaþungur og talandi í símann. Við biðum um stund en heyrðum Frikka mæla ýmis orð mælandum til ábendingar: „Þetta er gríðarstórt mál í íslenskri réttarsögu“ og „þú verður að áfrýja, annað er tómt rugl“. Þegar Frikki náði loks friði til að tala við okkur afsakaði hann sig vandlega enda þekktur sjarmör. „Fyrirgefiði karlarnir mínir, þetta var Jón Ásgeir“. Við inntum Friðrik um Lagatúlkunarnefnd. „Ég tel það vera skyldu mína að hjálpa nemendum. Ég var einmitt að ræða þetta við Sigurð Líndal í teiti um daginn en hann sagði mér að þetta væri fyrsta skrefið í metorðastiga lögmannsins. En auðvitað ber ég hag nemenda öðru fremur í brjósti.“ Friðrik gaf okkur nafnspjaldið sitt í skilnaðargjöf.

Júlía Margrét Einarsdóttir 3.A
Júlía sat í glæsilegri BMW-bifreið á nemendabílastæðinu ásamt háskólanemum. „Sælir Varðhundar, þetta er vinir mínir í Orator, félagi lögfræðinema. Þeir eru allir skotnir í mér enda þyki ég vera algjör Scarlett Johansson í júríunni.“ Júlía sté úr bílnum og gekk hring með okkur um lóð skólans og talaði nú fyrir alvöru um lög og reglur. „Ég lék mér með kennslubækur um sifja- og erfðarétt í æsku. Á meðan krakkarnir í hverfinu sippuðu og léku sér í Fallinni spýtu, sat ég í leðursófa foreldra minna og las lög. En að öllu bulli slepptu hef ég mikinn áhuga á að sinna lagavafstrinum í MR. Þetta er ekki fyrir leikmenn en ég held að ég geti þetta.“

Haukur Hólmsteinsson 4.C
„Blessaðir strákar, bíðið aðeins, þarf að fara yfir nokkur lög um langferðabíla sem Alþingi var að samþykkja.“ Haukur sat niðri í Cösu með skjalafjall á borðinu. „Hehe. Nei ég er að kynda ykkur strákar, setjisti hjá mér“ Við fengum okkur sæti við hliðina á goðsögninni. „Ég ber mikla virðingu fyrir mótframbjóðendum mínum, en ég held að það leiki enginn vafi á að ég er þeirra myndarlegastur“ Við heyrðum stórkarlaleg hlátrasköll sessunauta Hauks. „Verst að ég þekki bara stráka“. Við spurðum Hauk út í lögfræðimál. „Ég er gríðarlega áhugasamur um að komast í Lagatúlkunarnefnd. Tel mig hafa allt til starfans: Þekkingu, fagleg vinnubrögð og framsögn.“ Við kvöddum Hauk og hann bauð okkur heim til sín að horfa á Matlock, boð sem við gátum ekki þegið vegna anna. En það má bíða betri tíma.

Ljóst er að allir frambjóðendur eru mjög frambærilegir og áræðnir. Við vonum að kosningabaráttan verði drengileg og spennandi.

Fh. Varðhunda,
Helgi Hrafn 
|
  Bæði inspectors- og forsetakjörið er gríðarlega spennandi. Við munum fylgjast vel með. Jón Bjarni, Elín Lóa, Lovísa og Steindór- stál í stál, gat í gat. 
|
  Borið hefur á órökstuddri gagnrýni frambjóðenda sem er leikur að eldi því hnífur fjölmiðlavaldsins er beittur.

Helgi Hrafn 
|
  Bó-kaffið Bós 5.A sem er í framboði til Framtíðarstjórnar var hrikalega gott. Ætli Bó-árshátíð sé jafn seiðandi?

Helgi Hrafn 
|
  Sumir gefa sætabrauð aðrir hengja nælur. En munu krydd loforðasúpunnar seytla um varir nemenda? Við sjáum til.

Helgi Hrafn 
|
  Annar dagur kosningaviku - fagurgalar vakna!

Vökul augu vor vaka yfir réttlæti nemenda. Í dag ganga frambjóðendur um ganga skólans og vandi er að velja á milli þeirra. Hér verður gagnrýnni hugsun hampað til handa nemendum í valþröng. Fylgist með.

Ásgeir Pétur Þorvaldsson 5.M,
Helgi Hrafn Guðmundsson 6.A. 
|
Hvert er gjald lýðræðisins? Hvað vegur hvert atkvæði í gulli? Hversu langt fram á hengiflugið? Vaskir þjóðfélagsvinir og lýðræðisrýnar munu fylgjast grannt með kosningum nemendafélaganna í Menntaskólanum í Reykjavík. Þeir eru varðhundar réttlætisins. Varið ykkur!

ARCHIVES
03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 03/01/2011 - 04/01/2011 /


Powered by Blogger