<$BlogRSDURL$>
Lýðræðisrýnar
Tuesday, March 23, 2004
  Lagatúlkunarnefnd

Gríðarlega spennandi kosningabarátta er til lagatúlkunarnefndar. Það er næstum óþekkt að nokkur hafi gert skapaðan hlut sem setið hefur í henni. Varðhundarnir fóru á stúfana og náðu tali af frambjóðendum.


Þórður Gunnarsson 5.B
Við hittum Þórð þar sem hann skenkti sér kaffidreitil niðri í Cösu. „Maður verður að koma sér í gang, er að fara í grútleiðinlegan stærðfræðitíma“ sagði Þórður á meðan hann setti lokið á bollann. Varðhundarnir gengu með honum upp tröppurnar. „Ég er með skjöl sem ég þarf að líta yfir. Reikna ekki með að fylgjast mikið með kennslunni. Svo verð ég líklega á netfundi og nota að sjálfsögðu ferðatölvuna. Þarf að fara yfir nokkur mál með nefnd.“ Aðspurður um stefnumál og kosningaloforð var Þórður gagnorður: „Ég mun beita mér fyrir réttlæti nemenda. Lagavafstur er erfiður fyrir leikmenn.“ Við kvöddum Þórð með virktum.


Axel Kaaber 5.B
Axel var gríðarhress þegar Varðhundarnir báru að garði. „Sælir drengir! Ég er á leið niður í Héraðsdóm, ætla að fylgjast með ótrúlega spennandi forræðisdeilu.“ Við slógumst að sjálfsögðu með í för og á leiðinni niður að Lækjartorgi spurðum við um Lagatúlkunarnefndina. „Já, ég hef lengi alið þann draum að túlka júrísk mál fyrir krakkana. Lögfræðistörf eru mér í blóð borin, flestir þekkja líklega föður minn. Hann er svo oft í Lögbirtingarblaðinu.“ Þar vísar kappinn auðvitað í pabba sinn Lúðvík Kaaber. Við sögðum bless við Axel á tröppum Héraðsdóms. Hann kallaði á eftir okkur: „Ég heiti því að túlka vel og vandlega!“

Friðrik Steinn Friðriksson 5.B
Frikki sat í tölvustofunni, brúnaþungur og talandi í símann. Við biðum um stund en heyrðum Frikka mæla ýmis orð mælandum til ábendingar: „Þetta er gríðarstórt mál í íslenskri réttarsögu“ og „þú verður að áfrýja, annað er tómt rugl“. Þegar Frikki náði loks friði til að tala við okkur afsakaði hann sig vandlega enda þekktur sjarmör. „Fyrirgefiði karlarnir mínir, þetta var Jón Ásgeir“. Við inntum Friðrik um Lagatúlkunarnefnd. „Ég tel það vera skyldu mína að hjálpa nemendum. Ég var einmitt að ræða þetta við Sigurð Líndal í teiti um daginn en hann sagði mér að þetta væri fyrsta skrefið í metorðastiga lögmannsins. En auðvitað ber ég hag nemenda öðru fremur í brjósti.“ Friðrik gaf okkur nafnspjaldið sitt í skilnaðargjöf.

Júlía Margrét Einarsdóttir 3.A
Júlía sat í glæsilegri BMW-bifreið á nemendabílastæðinu ásamt háskólanemum. „Sælir Varðhundar, þetta er vinir mínir í Orator, félagi lögfræðinema. Þeir eru allir skotnir í mér enda þyki ég vera algjör Scarlett Johansson í júríunni.“ Júlía sté úr bílnum og gekk hring með okkur um lóð skólans og talaði nú fyrir alvöru um lög og reglur. „Ég lék mér með kennslubækur um sifja- og erfðarétt í æsku. Á meðan krakkarnir í hverfinu sippuðu og léku sér í Fallinni spýtu, sat ég í leðursófa foreldra minna og las lög. En að öllu bulli slepptu hef ég mikinn áhuga á að sinna lagavafstrinum í MR. Þetta er ekki fyrir leikmenn en ég held að ég geti þetta.“

Haukur Hólmsteinsson 4.C
„Blessaðir strákar, bíðið aðeins, þarf að fara yfir nokkur lög um langferðabíla sem Alþingi var að samþykkja.“ Haukur sat niðri í Cösu með skjalafjall á borðinu. „Hehe. Nei ég er að kynda ykkur strákar, setjisti hjá mér“ Við fengum okkur sæti við hliðina á goðsögninni. „Ég ber mikla virðingu fyrir mótframbjóðendum mínum, en ég held að það leiki enginn vafi á að ég er þeirra myndarlegastur“ Við heyrðum stórkarlaleg hlátrasköll sessunauta Hauks. „Verst að ég þekki bara stráka“. Við spurðum Hauk út í lögfræðimál. „Ég er gríðarlega áhugasamur um að komast í Lagatúlkunarnefnd. Tel mig hafa allt til starfans: Þekkingu, fagleg vinnubrögð og framsögn.“ Við kvöddum Hauk og hann bauð okkur heim til sín að horfa á Matlock, boð sem við gátum ekki þegið vegna anna. En það má bíða betri tíma.

Ljóst er að allir frambjóðendur eru mjög frambærilegir og áræðnir. Við vonum að kosningabaráttan verði drengileg og spennandi.

Fh. Varðhunda,
Helgi Hrafn 
|
Hvert er gjald lýðræðisins? Hvað vegur hvert atkvæði í gulli? Hversu langt fram á hengiflugið? Vaskir þjóðfélagsvinir og lýðræðisrýnar munu fylgjast grannt með kosningum nemendafélaganna í Menntaskólanum í Reykjavík. Þeir eru varðhundar réttlætisins. Varið ykkur!

ARCHIVES
03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 03/01/2011 - 04/01/2011 /


Powered by Blogger