Varðhundarnir í samstarfi við KR-flugelda kynna:
BOMBUFRAMBOÐ 2010Kæru samnemendur, klukkan sex í kvöld verður lokað fyrir framboð í Skólafélags og Framtíðarkosningunum í ár. Eftir að Árni “skiljum við okkur sviðna jörð” Inspector fækkaði embættum Skólafélagsins um helming mætti halda að kosningarnar yrðu eins og fyrirframskrifuð bók. En nei, svo verður nú aldeilis ekki. Gott fólk, við kynnum fyrir ykkur bombuframboð ársins:
Framboð nr. 1
Lóa Björk Björnsdóttir í Hestanefnd
Lóa litla lipurtá í 3.A hefur látið gamminn geysa allt árið og nú skilst okkur að engin breyting verði á því fyrir komandi vetur – nema nú verður enginn gammur látinn geysa heldur gandur. Á gandreið sinni inn í kosningavikuna hefur Lóa viðrað stefnumál sín við nemendur, svosem virkari þátttöku Hestanefndar á Skólafélagsspjallinu, sérstaka bloggfundi þar sem meðlimir Hestanefndar munu hittast og blogga um það sem miður fer í samfélaginu og massíva spilun á Robot Unicorn Attack. Og af hverju erum við alltaf að skrifa Hestanefnd... jú, því AÐALBARÁTTUMÁL LÓU BJARKAR ER AÐ LEGGJA NIÐUR ALLA STARFSEMI REGLU HINS BRENNANDI FÁKS.
Loksins er kominn frambjóðandi sem þorir að segja það sem allir hinir eru að hugsa. Það var löngu kominn tími til að leggja niður þessa skaufsjúgandi Reglu og taka upp Hestanefndina gömlu og virðulegu. Varðhundarnir geta ekki annað en sett þumalinn upp í loft þegar jafn kjarnyrt og glæsileg stefnumál eru viðruð.
Framboð nr. 2
Jón Áskell Þorbjarnarson í Lagatúlkunarnefnd
Engum dylst að NonnSkell er gríðarlega næmur ungur maður. Hann á ekki í nokkrum vandræðum með að skynja yfirvofandi ástand og túlka hvað best sé að gera enda er hann kominn af diplómötum í báðar áttir og getur víst túlkað yfir þrettán mismunandi tungumál. Dæmi um aðstæðutúlkun Þorbjarnarsonar kom með eftirminnilegum hætti í Útsvari ekki alls fyrir löngu. Elías Karl hringdi í Jón í góðri trú um að fá hjálp Skyljunnar við erfiða spurningu. Flestir hefðu búist við að Jónin svaraði bara rétt enda með svarið á takteinunum en dj Azkaban var búinn að hugsa tvo leiki fram í tímann. Með því að sleppa að svara félaga sínum tryggði hann æsilegan endasprett sem hélt sjónvarpsáhorfendum við efnið út kvöldið. Eftir á var talað um sigur Garðabæjar en algert túlkunarrúst Jóns Áskels.
Ekki láta ykkur bregða þótt grundvallarreglur Skólafélagsins verði túlkaðar upp á nýtt á næsta ári. Ekki láta ykkur bregða þótt lögin segi eitt en túlkunarspaðarnir annað. Með Jón í nefndinni er víst að hulunni verður svipt af stærstu hneykslismálum sögunnar enda virðist maðurinn ekki geta hætt að hugsa tvo leiki fram í tímann.
Framboð nr. 3
Jón Sigurðsson í Forseta listafélagsins
Þegar veldi Íslenskrar erfðagreiningar stóð sem hæst rétt fyrir síðustu aldamót lét Kári Stefánsson óprúttna aðila sækja fyrir sig nokkur bein út í Gamla kirkjugarð. Í skammdegismyrkrinu læddust nokkrir skítugir verkamenn að leiði Jóns forseta og grófu beinin upp. Á tilraunastofu dr. Kára var síðan krukkað með beinin og erfðaefnið úr þeim með það fyrir augum að endurskapa Jón forseta. Því miður misheppnaðist tilraunin hræðilega þegar óþekktur starfsmaður Kára óvart öll beinin.
Líf Jóns Sigurðssonar yngri hefur verið þrautaganga síðan. Vanvirtur af uppeldisföður sínum, dr. Kára, hefur hann neyðst til að ganga sömu leið og aðrir einstaklingar um refilstigu íslensks menntakerfis. Metnaður Jóns yngri er þó skýr. Hann vill verða forseti.
Það verður ekki sagt að ráðist sé á garðinn þar sem hann er hæstur en vissulega er um forsetaembætti að ræða. Heimildir herma að stefnumálin gangi mikið til út á að flytja íslensk fornhandrit heim og hanna nýjan þjóðbúning. Undirdeildir Listafélagsins verða þannig á næsta ári þjóðdansadeild, rímdeild, langspilsdeild að ógleymdri vikivakadeildinni. Boðið verður upp á nemendaferðir í Jónshús í Kaupmannahöfn þar sem ekki mun vanta vínið.
Íslendingar hafa áður kosið Jón sem forseta – hvers vegna ekki aftur?
Gott fólk, ekki láta ykkur bregða þótt komandi kosningabarátta taki á sig brátt díabólískan snúning og afhöggnum hausum muni rigna yfir skólasamfélagið. Hér eru á ferðinni einstaklingar sem kalla ekkert ömmu sína og munu enga miskunn sýna. Varðhundarnir eru ykkar eina von, yfir og út.