<$BlogRSDURL$>
Lýðræðisrýnar
Thursday, April 02, 2009
  Varðhundar lýðræðisins einsetja sér það að veita nemendum innsýn inn í alla kima kosningabaráttunnar sem fram fer innan Menntaskólans. Sérlegur útsendari Varðhundanna fór því og fylgdist með þegar að inspectors og forsetaframbjóðendur fluttu ræður sínar í bekkjunum. Gjörið þið svo vel:

Inspector

Árni Freyr Snorrason


Árni Freyr gerðist svo frakkur að trufla kennslu hjá ofurmenninu Má Björgvins og kom því þar með strax til skila að hann léti ekki ráðskast með sig, sannarlega kostur sem prýða þarf komandi inspector. Hann mætti snyrtilega klæddur í skyrtu, jakka og gallabuxur sem hann skreytti síðan með hinu klassíska rauða power-bindi og augljóst var frá upphafi að hann var mjög vel undir kynningu sína búinn. Í ræðu sinni einbeitti hann sér að því að skýra betur hvar munurinn á stefnumálum hans og Halldórs Kristjáns lægi, í stað þess að tíunda hvert stefnumál í löngu máli, en fyrir þetta fær hann gylltan broskall í kladdann.

Eftir hnitmiðaða ræðu opnaði Árni Freyr fyrir spurningar og þar eins og fyrri daginn var hann vel undirbúinn. Ein spurning virtist slá hann svolítið út af laginu, en þá var hann spurður út í þær ásakanir Halldórs á hendur hans að hann hefði fyrst stutt framboð Halldórs en síðan gengið á bak við orð sín og tilkynnt framboð mánuði fyrir kosningar. Eftir að hafa japlað á orðum sínum í smá tíma sneri Árni málinu sér skemmtilega í hag með því að skjóta á móti og segja sig einfaldlega ekki lengur hafa getað stutt Halldór eftir Le Futur málið víðfræga. Hvernig málum er í raun háttað verður hver og einn að ákveða fyrir sjálfan sig.

Á heildina litið kom Árni Freyr vel fram sem traustur og undirbúinn frambjóðandi, brandarar hans hittu flestir í mark (sérílagi þeir sem snerust um efnafræði, enda var Már á staðnum) og almennt var umræðan jákvæð eftir að hann var farinn.


Halldór Kristján Þorsteinsson

Halldór Kristján var, rétt eins og Árni Freyr, vel undirbúinn og snyrtilegur til fara, í jarplituðum hátíðarklæðum sem sögðu „hér fer metnaðarfullur en jarðbundinn maður, ég er mikilvægur en samt jafningi ykkar“. Sannarlega hárnákvæmt fataval hjá Halldóri. Í ræðu sinni fór Halldór yfir aðeins víðari völl en Árni Freyr, en talaði rétt eins og hann um að mikilvægt væri að bæta samskipti stjórnanna tveggja sem hafa víst verið býsna stirð á liðnu ári. Halldór gekk jafnvel svo langt að kalla það fjandskap sem kristallaðist í því að bak við framboð sitt stæði Framtíðarstjórn meðan Skólafélagið studdi Árna Frey.

Halldór Kristján kom svolítið á óvart að því leiti að hann reyndi ekki að vera fyndni frambjóðandinn, eins og ef til vill hefði mátt búast við, heldur stillti hann öllu gríni í hóf og uppskar í mesta lagi stöku brosviprur í munnvikum sumra. Sömu sögu er að segja af spurningunum, en svörin við þeim voru langflest frekar alvarleg. Í augum þess sem þetta ritar kaus Halldór að firra sig ábyrgð á öllum mistökum sitjandi Framtíðarstjórnar en Le Futur málið og skyndileg dagsetningarbreyting árshátíðarinnar virtust lítið snerta hann.

Bomba þessarar heimsóknar kom þegar Halldór Kristján var spurður af hverju hann kysi að bjóða sig frekar fram í inspector en forseta Framtíðarinnar. Halldór sá sér leik á borði og sagði áðurgreinda sögu af því hvernig Árni hefði komið að máli við hann og kvatt til að bjóða sig fram, en síðan gengið bak orða sinna og boðið sig fram gegn honum á síðustu stundu.

Almennt séð var heimsókn Halldórs jákvæð og hann kom vel fyrir en mörg óþörf skot á Árna Frey draga hann niður á örlítið lægra plan. Engu að síður fær Halldór fallegan broskall í kladdann, þótt ekki sé hann gylltur.



Athygli vekur að þótt báðir frambjóðendur tali eðlilega um að skera niður á komandi ári talar Árni Freyr sérstaklega um stórfelldan niðurskurð í útgáfu Menntaskólatíðinda, en báðir voru þeir í ritnefndinni Klémenz á sínum tíma og eiga án efa sinn þátt í því að koma blaðinu í núverandi form. Sömuleiðis nefnir Árni ótt og títt að fyrir fimm árum hafi MT einungis kostað 250 þús. en sér litla ástæðu til að benda á að MT var þá lítið annað en stuttur bæklingur sem var næstum jafnlélegur og Loki.



Forseti


Arnór Einarsson

Arnór Einarsson kom, eins og forsetaframbjóðanda sæmir, í snyrtilegum svörtum jakkafötum með ekkert bindi, en fyrir vikið er hann virðulegur en samt casual. Athygli vekur þó að Arnór hefur verið í keimlíkum fötum alla þessa viku og það er jafnvel spurning hvort kominn sé tími til að peppa aðeins upp á lúkkið aftur. Maður spyr sig.

Ræða Arnórs kem vel út þrátt fyrir smá að hafa fipast á stöku stað og sú tækni Arnórs að hafa kynningu sína frekar í formi einskonar spjalls, þar sem áheyrendur gátu tekið þátt, í stað einhliða ræðu kom skemmtilega út. Augljóst var að Arnór er fyndni frambjóðandinn í ár og brandarar hans heppnuðust flestir vel. Sérstaklega þótti fyndið þegar hann reyndi að sannfæra Pálínu enskukennara um að stúlka hefði kafnað og dáið á Tebói í ár.

Í lok ræðunnar vöknuðu fáar spurningar en þær sem komu svaraði Arnór vel. Saga kom nánast ekkert við sögu í heimsókninni, en í staðinn einbeitti Arnór sér að sér og sínum stefnumálum, þannig að eðlilega er ekki frá neinum skandölum að segja.

Arnór heldur góðu gengi frambjóðenda áfram og má vera stoltur af kynningu sinni. Hnitmiðuð, einföld og skemmtandi en kannski helst til bitlaus ef eitthvað er.


Saga Úlfarsdóttir

Saga var smekklega klædd með vel þvegið hár og allt það. Eins og hinir frambjóðendurnir kynnti Saga sig en munurinn á Sögu og hinum felst í því að hún ákvað að flytja um sig stutta ævisögu. Tónlistarnámið, árin í Danmörku, stuttmyndin um Þingvallavatn og fleira sem öllum var nákvæmlega sama var ítarlega útlistað og á hún hrós skilið fyrir að nenna að flytja þá romsu í öllum bekkjum.

Eftir of langa, en annars ágæta kynningu, tók við meginefni ræðunnar en þá renndi hún stuttlega yfir stefnumál sín. Það gerði hún skilmerkislega og snyrtilega en fróðir menn tóku eftir að líklega hafa málin verið rædd alvarlega í kosningamiðstöð Sögu, því nú talaði hún um að sameining Skinfaxa og Skólablaðsins væri aðeins hugmynd sem vert væri að líta á ef þess þyrfti. Skynsamleg ákvörðun hjá sögu að bakka með þetta vafasama stefnumál, enda hafa hvorki Árni Freyr eða Halldór Kristján lýst yfir vilja til þess að framkvæma það, og jafnvel hefur Árni sagt beint að hann líti á hugmyndina sem algjört neyðarúrræði.

Á heildina litið kom Saga vel frá sínum málum og svaraði flestum spurningum vel. Helstu lægðir kynningarinnar voru fólgin í tilgangslausri útlistun á lífssögu hennar og það hve vandræðaleg hún var á stundum. Svo vandræðaleg að um það var rætt eftir brottför hennar.




Ljóst er að frambjóðendur þessa árs eru vel undir kosningaslaginn búin og hafa flest velmótaða stefnuskrá. Til dæmis hafa þau öll það markmið að virkja undirfélögin, en það er álíka frumlegt og sjálfgefið og það er fyrir quaestorsframbjóðendur að skrá „peningarnir skili sér til nemenda“ sem stefnumál. Fleira var það ekki að sinni.

 
|
Hvert er gjald lýðræðisins? Hvað vegur hvert atkvæði í gulli? Hversu langt fram á hengiflugið? Vaskir þjóðfélagsvinir og lýðræðisrýnar munu fylgjast grannt með kosningum nemendafélaganna í Menntaskólanum í Reykjavík. Þeir eru varðhundar réttlætisins. Varið ykkur!

ARCHIVES
03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 03/01/2011 - 04/01/2011 /


Powered by Blogger