
Fyrsti stóri skandallinn er orðinn að veruleika og enn heilir 19 dagar í kosningar. Uppi varð fótur og fit þegar einn af okkar margdáðustu MR-ingunum, Sara Magnea Arnarsdóttir, var tilkynnt sem colleguframbjóðandi á frétt hér Varðhundunum 11. mars. Sara fékk víst mjög góð viðbrögð frá samnemendum sínum og vildu margir meina að þetta hafi verið rökrétt skref upp á við fyrir hana, en hún er búin að fara mikinn í félagslífinu síðastliðna árið og er flestum vel þekkt. Þó að flestum kom ekki á óvart þegar þau fréttu að hún ætlaði að bjóða sig fram, þá varð hún einstaklega hissa á því sjálf, enda aldrei búin að lýsa því yfir að hún ætli í collegu. Hún lét okkur Varðhundana vita hið snarasta og um leið lögðumst við í það verkefni að finna flugufótinn fyrir þessum furðulega orðrómi. Eftir að hafa kembt leynilega tengslanetið okkar sem er ávallt á varðbergi fyrir spillingu og baktjaldamakki, komumst við að sannleikanum. Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir hafði komið af stað orðróminum af hemi-nöfnu sinni, en Sigurlaug sjálf ætlar nefnilega að gefa kost á sér í collegu. Með þessu ætlaði hún að vekja athygli á framboði sínu enda sá hún fyrirfram að Sara Magnea mundi ekki gefa kost á sér í colleguna jafnvel þó flestir héldu það. Svipuð taktík var notuð af Demókrataflokk Bandaríkjanna í nýliðnum forsetakosningum, en lengi vel var talið að Hillary Clinton eða Rudy Giuliani (hjá repúblikanaflokkinum) yrðu forsetakandídatar, svipað og Sara Magnea var talin líklegur collegukandídat, en að lokum varð það hinn nánast áður óþekkti Barack Obama sem stóð uppi sem sigurvegari. Þegar Varðhundar nálguðust Sigurlaugu um málið var fátt um svör en þó sagði hún að “framboð mitt til collegu er trúarjátning skrifuð á stofnhandritin sem lýsa yfir örlögum þjóðar. Já við getum það”. Ljóst er að það er verðugt verkefni fyrir Sigurlaugu að kynna sig betur fyrir fólki skólans en það er þó spurning hvort henni verði fyrirgefið bellibrögðin sem hún beitti til þess að koma sér í sviðsljósið. Með örlítilli hjálp frá Cybermeister náðu Varðhundar að koma höndunum yfir frumgerð af kosningaplakötum hennar, sem má sjá hér að neðan, en þau eru óneitanlega í epískari kantinum. Verða Menntskælingar enn í sjokki yfir afturköllun framboðs Söru Magneu eða er Sigurlaug Sara breyting sem við getum trúað á?
Við hvetjum lesendur til að senda okkur slúður, skúbb og fréttatilkynningar á vardhundarnir@gmail.com, en ef lesendur vilja halda nafnleynd er hægt að nýta sér síður á netinu á borð við þessa: http://www.sendanonymousemail.net/