<$BlogRSDURL$>
Lýðræðisrýnar
Sunday, February 24, 2008
 

Hversu spilltir sem frambjóðendur í embætti nemendafélaganna þetta skólaárið kunna að virðast, þá blikna þeir í samanburði við þá rótgrónu spillingu sem viðhefst innan kjörstjórnarinnar sjálfrar. Ekki einungis hefur Sindri Stephensen komið fyrir tveimur af sínum stærstu stuðningsmönnum innan kjörstjórnarinnar heldur hefur kjörstjórnin þegar lagt grunninn að kosningasvindli með því að “lagfæra” niðurstöður könnunar um fylgi inspectorsframbjóðenda, sem mun birtast í Loka í næsta blaði.

Það gefur að sjálfsögðu auga leið að þegar kemur að stjórn lýðræðislegra kosninga er það gersamlega óhæft að stjórnendur þeirra tengist frambjóðendum persónulegum böndum, í þessu tilfelli bjórdrykkjubandalag quaestors og Inspectors, formanns kjörstjórnar. Sögur þess efnis að formaðurinn þræði partý borgarinnar og breiði út boðskap eins frambjóðendanna í stærsta embætti skólans geta ekki haft annað en slæm áhrif á traust nemenda gagnvart kosningunum, sérstaklega þegar heyrst hefur að formaðurinn hafi beitt andmælendur síns manns ofbeldi fyrir að fylgja honum ekki að málum.

Mun betra væri fyrir alla hlutaðeigandi ef hlutlaus aðili kæmi þar að og stjórnaði kosningunum án þess að hafa nokkurra persónulegra hagsmuna að gæta. Þar sem Skólafélagsstjórn fer líka það vel með peningana sína að hún hefur ráð á því að spreða tugum þúsunda í vandræðalega slaka hugmynd einsog Fálkaorður Skólafélagsins þá ætti ekki margt að standa í vegi fyrir því að þeir réðu utanaðkomandi verktaka til að halda hér kosningar. Þá gætu allir efahyggjumenn innan skólans haldið kjafti og Inspectorsframbjóðendur gætu hætt að senda útsendara sína til að lumbra á andstæðingum framboðs síns.

Í þetta skiptið sleppa þó nemendur skólans vonandi fyrir horn þar sem þrír meðlimir Framtíðarstjórnar komast sjálfkrafa inn í kjörstjórn og einsog allir vita er Framtíðarstjórn mun minna spillt þetta árið en Skólafélagsstjórn. Það kemur því í hlut Magnúsar Þorláks Lúðvíkssonar, Meistara með meiru, að sjá til þess að kosningasvindl Daða Helgasonar komist ekki í framkvæmd. Hann hefur sér við hlið Marinó Pál Valdimarsson, alþekktan “all-in” Catan spilahund og Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur, sem hefur stjórnað Sólbjarti af stakri snilld þetta árið og innleiddi meðal annars þá nýjung að taka við umræðuefnum áður en dagsetningar voru settar á keppnir, þrátt fyrir þá reglu keppninnar að samið skuli um umræðuefni mest einni viku fyrir keppnisdag.

Ekki er öll nótt úti enn fyrir nemendur skólans þar sem Gettu betur stjarnan, Vignir Már Lýðsson, hefur lagt inn formlega tillögu til kjörstjórnar þess efnis að kosningarnar til inspectors verði skriflegar. Mun kjörstjórnin gerast svo svívirðileg að neita þessari tillögu eða munu Daði og Bjössi jafnvel líta í eigin barm og segja af sér? Fylgist með á Varðhundunum. 
|
Hvert er gjald lýðræðisins? Hvað vegur hvert atkvæði í gulli? Hversu langt fram á hengiflugið? Vaskir þjóðfélagsvinir og lýðræðisrýnar munu fylgjast grannt með kosningum nemendafélaganna í Menntaskólanum í Reykjavík. Þeir eru varðhundar réttlætisins. Varið ykkur!

ARCHIVES
03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 03/01/2011 - 04/01/2011 /


Powered by Blogger