<$BlogRSDURL$>
Lýðræðisrýnar
Thursday, March 22, 2007
 

"Manst' ekk' eftir mér?"
Söng Benedikt Briem af mikilli innlifun hér um árið. En spurningin er þessi: man
einhver eftir honum? Ritstjórn Varðhundanna fékk nafnlausa ábendingu frá Steineyju
Skóladóttur og komst í kjölfarið í leynilegt myndaalbúm skólans sem var geymt í
leynilegri grafhvelfingu við Amtmannstíg 3 og 1/2. Á myndunum urðum við strax vör
við mann sem leit út fyrir að vera hrókur alls fagnaðar. Ekki virtist vera sá
atburður þar sem maður þessi var ekki í broddi fylkingar. Myndirnar sýndu hann taka
við hljóðnemanum, veita Morfísbikarnum viðtöku og eins voru tugir ef ekki hundruð
mynda af honum í sleik við sætustu stelpuna á ballinu. Við nánari eftirgrennslan
urðum við þess vísari að umræddur maður bar nafnið Benedikt Briem, og hefur stundað
nám við Menntaskólann síðan haustið 2004. Hins vegar virtist enginn viðmælenda okkar
kannast við kauða þegar við gerðum óformlega könnun á göngum skólans. Við náðum þó
tali af móður hans á heimili þeirra að Spóahólum 26. Þegar við sýndum henni
myndirnar af syni hennar brast hún í grát og vísaði okkur inn í bernskuherbergi
hans, þar sem æskubangsi hans var staðsettur, og fleiri hlutir sem að sögn móður
hans hafa gríðarlegt tilfinningalegt gildi, því allt voru þetta hlutir sem voru í
miklu uppáhaldi hjá Benedikt, eða Benzinum eins og móðir hans kallaði hann.

"En þetta var áður en hörmungarnar dundu yfir. Áður var líf stráksins míns draumi
líkast. Hann brilleraði í skólanum, átti fjölda góðra vina, og píurnar sátu um hann.
En samt í alvöru, þær sátu um hann. Ég þurfti að banda þeim í burtu, tugum þeirra,
þegar ég var að koma heim úr vinnunni á daginn. Eftir að hafa klifið metorðastiga
félagslífsins var markið sett á toppinn. Hann ætlaði að vera einn af stórlöxunum, og
gefa kost á sér sem Systemus Tölvuakademíunnar. Eins og Benzi minn sagði er
Tölvuakademían eins og þriðja nemendafélagið, og mikil völd fólgin í þessari stöðu.
Svo þegar líða tók á skólaárið og Benedikt fór að viðra hugmyndir sínar við
skólafélagana, sem allir tóku þeim með fögnuði, flugeldum, trumbuslætti og hvaðeina,
þá gerðist svolítið undarlegt. Það var seint í febrúar þegar við héldum að sumarið
væri að fara að koma að bankað var á dyrnar hjá okkur. Í dyrunum stóð strákur með
axlasítt hár og hýjung. Hann hlýtur að hafa verið skólafélagi Benza því hann tók
honum vel og bauð honum inn. Við höfðum verið að dunda okkur við að þæfa ull saman,
við mæðginin, en tókum strax fram lagköku og kaffi handa gestinum."

Þegar hér var komið sögu treysti hún sér ekki til að halda áfram en eftir að
stuðningfulltrúi Varðhundanna hafði átt við hana stutt spjall fylltist hún
fítonskrafti og bunaði sögunni út úr sér þannig að við urðum að spila viðtalið í
slómó til að geta skilið það:

,,Ég ákvað að leyfa strákunum að vera í friði, ég vissi svosem ekki nema þeir færu
að tala um e-ð sem þeir vildu síður að mamma heyrði. Þegar ég kem síðan aftur inn í
eldhúsið er gesturinn á bak og brott en Benzi situr enn í sínum stól, æskustól.
Síðan þá hefur hann ekki brugðist við nafni sínu, eins og hann muni það ekki. Þessi
örlagastund virðist hafa haft víðtækari áhrif því enginn virðist muna eftir honum,
nema ég. Þetta hlýtur að hafa verið e-ð svartakukl. Gesturinn var með mikið af
beinum á sér og hrossahári. Þetta virðist þó ekki hafa haft áhrif á mig, ég er líka
blind.*"

Varðhundunum brá við og þeir skulfu á beinunum, enda hefði þá aldrei grunað til
hvílíkra fólskubragða Jóhann Björn myndi grípa til þess að verja stöðu sína í
Tölvuakademíunni. Ljóst er að hvergi má slaka á ef vilji nemenda Menntaskólans er sá
að viðhalda lýðræðinu. Enginn er óhultur fyrir löngum, digrum, loðnum armi
spillingar og valdagræðgi.

Varðhundarnir vilja ennfremur hvetja alla þá sem annt er um minni sitt og dómgreind
að hylja augu sín með dökkum sólgleraugum, slæðum, eða öðru sem þeim gæti hugnast.
Því eitt er víst; Jóhann Björn og hans líkar eru kölska sjálfum viðsjárverðari og
svífast einskis. Einskis, kæru lesendur.

*Nú kunna glöggir lesendur að furða sig á hvernig þessi blinda, örvinglaða móðir gat
borið kennsl á son sinn af leynimyndunum í leynialbúminu leynilega. Hið sanna er að
Skólafélagsstjórn eyddi hundruðum þúsunda í sérstaka upphleypta prentun á myndum úr
félagslífinu, eins og hefur um langa hríð tíðkast í Verslunarskólanum.
 
|
Hvert er gjald lýðræðisins? Hvað vegur hvert atkvæði í gulli? Hversu langt fram á hengiflugið? Vaskir þjóðfélagsvinir og lýðræðisrýnar munu fylgjast grannt með kosningum nemendafélaganna í Menntaskólanum í Reykjavík. Þeir eru varðhundar réttlætisins. Varið ykkur!

ARCHIVES
03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 03/01/2011 - 04/01/2011 /


Powered by Blogger