Varðhundum hafa borist fregnir af tíu framboðum í stjórn Framtíðarinnar. Guðrún Sóley er ein þeirra sem berst með dýrslegum ofsa um eitt af sætunum fjögur. Plaköt hennar hafa vakið mikla athygli og um hádegið í dag var fárið orðið slíkt að Varðhundum þótti brýnt að rannsaka málið. Eftir mörg símtöl við tengiliði Hundanna í S-Ameríku kom upp úr dúrnum að plakötin eru afrakstur margra ára hefðar í finnskri hönnun. Við spjölluðum við Guðrúnu um málið.
Blm. Vh: Guðrún, nú er finnsk hönnun hvarvetna lofuð og rómuð, allt frá Ittala-glervörum til hinna fallegu Finlandia-flaskna, var ekki feykilega kostnaðarsamt að ráðast í þessar framkvæmdir?
Guðrún: Ég svara engum spurningum um kostnað kosningabaráttu minnar og vísa öllum slíkum til kosningastjóra míns, Feiiki Lundanoonen.
Blm. Vh: Hefði ekki verið mun persónulegra og kostnaðarminna að teikna plakötin sjálf, fríhendis, skanna þau inn með hjálp föður þíns, prenta út og hengja upp sjálf?
Guðrún: Vissulega hefði verið hægt að herða sultarólina enn meira. Ég sé ekki eftir krónu, fleyti framtakið mér í Framtíðarstjórn.
Enn og aftur verða Varðhundar vitni að gríðarlegum fjáraustri í kosningabaráttu vorsins. Sem fyrr eru það frambjóðendur úr stétt alþýðu sem verða undir. Hinn fátæki en göfugi hugsjónarmaður, sem einnig er óþekktur listamaður, á ekki kapital til að halda í við kapphlaupið, dregst aftur úr og gleymist gráðugum kjósendum sem meta sælgæti og finnska hönnun ofar göfugum gildum.
Vöknum til lífsins!