
Innan um aragrúann af auglýsingasneplum á veggjum skólans gat að líta stórt veggspjald af ungum pilti í hlýrabol sem virtist í annarlegu ástandi. Kenndu menn þar strax svip Magnúsar Þorláks, sem hefur verið í Gettu-betur liði MR-inga þetta árið. Magnús býður sig fram til embættis í Framtíðarstjórninni. Hann sagði pass við öllum spurningum varðhunda og vildi ekki tjá sig um hvort hann hefði tíma til að sinna bæði gettu betur og framtíðinni í 5. bekk.
"Þetta er hreint og klárt hneyksli," sagði Hrafnhildur Héðinsdóttir einn mótframbjóðandi Magnúsar. "Hann var búinn að lofa mér hljóðnemanum heim á næsta ári svo það er eins gott að hann standi við það." Guðrún Sóley Gestsdóttir tók í sama streng. "Veggspjöldin mín eru sko miklu litríkari og fallegri heldur en karlrembuáróðurinn hjá Magnúsi. Hvað verður um öll litlu dýrin?"
Kosningavikan fer af stað með látum og strax í morgun kl. 8 voru allir veggir inngangs Gamla Skóla þaktir auglýsingum. Í hádeginu náði lýðskrumið þó hámarki þegar vart var fótað fyrir frambjóðendum að gefa sleikipinna, vöfflur, barmmerki, sódavatn og svo framvegis. Varðhundar biðja fólk um að vera á varðbergi og gæta þess að smjörsýra leynist ekki í sælgætinu sem ykkur er rétt.