
Það hriktir í stoðum skólans þessa dagana þegar út spurðist að nýneminn Andri Snær Ólafsson hygðist bjóða sig fram í Spilafélagið og lagatúlkunarnefnd. Þykir það fullmikil dirfska að vaða með slíkum buslugangi inn í embætti hér og þar og eru núverandi lagatúlkunarnefnd og spilafélagið uggandi yfir því hvernig muni fara nái hann kjöri. Varðhundar mæltu sér mót við Andra þar sem hann sat í kaffiboði hjá Hannesi Portner.
Varðhundar: Er þetta einhver skyndiákvörðun hjá þér?Andri: Ja svona, ég fékk þessar tvær flugur í höfuðið þegar ég vaknaði einn morguninn og fannst þetta prýðis hugmynd. Svo hef ég líka aldrei komið í Dreng og langaði að skoða mig um í Kjósinni.
Vh:Heldurðu að meðfélagar þínir í lagatúlkunarnefndinni muni láta spila með sig?A: Það þarf náttúrulega einhver að hafa tögl og hagldirnar þegar vafaatriði með lögin dúkka upp. Á þeim fundum þýðir ekkert að vera að spila Ólsen Ólsen þegar almenningur krefst úrskurðar.
Vh: Náir þú kjöri í lagatúlkunarnefnd, hefur þú íhugað þann möguleika að breyta lögunum þannig að Forseti spilafélagsins geti ráðið í stöður félagsins að vild?A: Það verður bara allt að koma í ljós. Ég vil sem minnst tjá mig um það. Ég vil þó benda á kosningaskrifstofu mína sem ég hef opnað að Bankastræti 0 þar sem kjósendur geta hitt mig og skeggrætt um málefni kosninganna yfir kaffibolla.
Að þessu mæltu kvaddi Andri með kurt og pí og snerist á hæli til kosningaskrifstofu sinnar. Varðhundar geta ekki annað en dást að frambjóðandanum fífldjarfa en treysta þó á að kjósendur muni gera rétt þegar þar að kemur.