Það var skrautlegt um að litast í félagsheimilinu þennan lokadag áróðurs og lýðskrums. Frambjóðendur kepptust við að ná athygli og hylli kjósenda með matargjöfum, slikki og sirkusbrögðum. Voru sumir svo stórtækir að borðin svignuðu undir kræsingum svo minnti helst á bakarí eða heildverslun.
Það var öllum ljóst sem lagði leið sína í Cösu að útgjöld frambjóðenda væru gríðarleg og allt lagt í sölurnar. Það er því ekki undarlegt að menn velti vöngum yfir því hvaðan fjármagnið kemur. Er þetta greitt úr eigin vasa; hafa frambjóðendur skrifað upp á víxla eða veðsett bílskrjóðinn til að veiða atkvæðin? Eða veita fjársterkir aðilar fé inn í kosningabaráttuna? Það eru þó hreinar línur að ekkert fæst frítt. Hér fara fram kaup kaups. Frambjóðandinn kaupir atkvæðið en hver hefur keypt frambjóðandann? Hverjir eiga eiginlega hagsmuna að gæta? Hverju sækjast þeir eftir?
Æskilegt væri því að framboðin birtu uppgjör vegna kosningabaráttu sinnar. Það er hinsvegar skýlaus krafa í lýðræðisríki að kjörnir fulltrúar opni bókhald sitt. Kjósendur eiga allan rétt á að vita. Núverandi ástand er óviðunandi og blettur á lýðræðinu.
ÁPÞ