K J A L L A R I | Ásgeir Pétur Þorvaldsson
Hvað ræður þínu atkvæði, lesandi góður?Eru það gylliboðin? Loforðin? Sælgætið? Von um bitlinga? Hrossakaup?
Eða er það sannfæringin um að hvert atkvæði skipti máli. Atkvæðið er vald, vald til að hafa áhrif, vald til breytinga. Réttur sem barist hefur verið fyrir af meiri hörku en nokkuð annað. Réttur sem er það fyrsta sem glatast sé hann ekki virtur!
Með atkvæðinu er vald fært í hendur fárra en valdinu verður að fylgja ábyrgð. Ábyrgð á því að valdinu sé beitt í þágu fólksins. Að valdhafar beri ábyrgð á gjörðum sínum. Sé ekki kosið af ást og virðingu fyrir lýðræðinu fylgir valdinu engin ábyrgð heldur er það látið af hendi skilyrðislaust. Þá er þess ekki lengi að bíða að stjórnvöld sitji á valdi sínu og komist upp með að sniðganga leikreglur lýðræðissamfélagsins.
Hvernig getur sá haft skoðanir sem hefur ekki dug til að fylgja þeim eftir með atkvæði sínu? Hvernig getur sá haldið sjálfsvirðingu sinni sem kýs án hugsunar. Sá sem kýs út í loftið tekur afleiðingunum.
Illa ígrundað atkvæði er að bregðast samfélagslegri skyldu sinni um að standa vörð um mannréttindi samborgara sinna. Kjóstu því samkvæmt sannfæringu. Annað er ekki mannsæmandi.